Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 220. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1074  —  220. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um neytendalán.


Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Neytendavernd á fjármálamarkaði er verulega ábótavant. Því miður hefur lítið áorkast á þessu kjörtímabili. Sjaldan hefur verið meiri þörf en nú á öflugri vernd í þágu neytenda vegna skuldavanda heimilanna.
    Úrlausn í skuldamálum heimila hefur leitt í ljós að víða er pottur brotinn í löggjöf á sviði neytendalána og eftirliti með henni. Hvergi hafa þeir ágallar komið skýrar fram en í kjölfar hæstaréttardóma er vörðuðu ólögmæti gengistryggðra lána. Þrátt fyrir fjölda eftirlitsaðila á fjármálamarkaði hafa álitaefni tengd uppgjöri umræddra lána ekki enn verið til lykta leidd. Mætti í þessu sambandi nefna Fjármálaeftirlitið, Neytendastofu, úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, umboðsmann skuldara og eftirlitsnefnd um framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar. Fjöldi annarra alvarlegra og stórra mála hafa komið upp á yfirborðið eins og ráðleggingar að kaupa hlutabréf fyrir innstæður án þess að undirstrika áhættuna, kaup á stofnbréfum sparisjóða, jafnvel með láni, og kaup á búseturétti án skýrra trygginga. Engin virðist sinna slíkum málum þó að þau hafi oft ógnað fjárhag viðkomandi einstaklinga.
    Umræddar stofnanir hafa ýmist talið sig skorta valdheimildir eða fjármagn til að bregðast við vandanum sem kann að undirstrika þörfina á að einn og sami aðilinn innan stjórnsýslunnar sinni málefnum neytenda á fjármálamarkaði. Allir þeir sem fjallað hafa um málið í efnahags- og viðskiptanefnd á þessu kjörtímabili hafa bent á nauðsyn þess að hafa neytendaverndina vel skilgreinda og á ábyrgð einnar stofnunar. 1. minni hluti tekur undir mikilvægi þess að neytendavernd á fjármálamarkaði verði vel skilgreind og vistuð á einum stað.
    Þetta frumvarp kemur allt of lítið til móts við þennan vanda. Við umfjöllun málsins kom fram að Neytendastofu, sem ætlað er að annast framkvæmd og eftirlit með ákvæðum frumvarpsins, skorti fjárheimildir til að rækja það hlutverk sitt. Fjármálaeftirlitið, sem fengið hefur veglegar fjárveitingar á undanförnum árum, telur það aftur á móti ekki sitt hlutverk að skera úr álitaefnum sem risið hafa í samskiptum einstakra neytenda við eftirlitsskylda aðila.
1. minni hluti fagnar því að upplýsingagjöf til lántaka er aukin í þessu frumvarpi. Augljóst er að bæta þarf upplýsingagjöf og fjármálalæsi. Það hlýtur að vera umhugsunarefni „að hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar verði 75% svo ekki verði röskun á ríkjandi viðskiptaháttum sem sátt ríkir um“ eins og kemur fram í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja til nefndarinnar. Hér er ekki verið að tala um hin hefðbundnu smálán sem bera enn hærri kostnað. Vonandi mun frumvarpið, verði það að lögum, koma í veg fyrir eða í það minnsta fækka dýrum skammtímalánum.
    Þá hafa komið fram efasemdir um hvort framkvæmd verðtryggðra lána hér á landi standist ákvæði tilskipunarinnar sem frumvarpinu er ætlað að innleiða þrátt fyrir að í frumvarpinu séu ýmis ákvæði sem hafi að markmiði að styrkja vernd þessara neytenda. Frumvarpið gerir ráð fyrir að neytandi sé upplýstur um sögulega þróun verðlags og vaxta en að auki hefur meiri hlutinn, fyrir tilstilli 1. minni hluta, lagt til að neytandi verði upplýstur um þróun verðlags og ráðstöfunartekna síðustu 10 ár fyrir lántöku. 1. minni hluti vill auk þess að lántakendur langtímalána verði upplýstir um greiðslubyrði, sem nær út fyrir hefðbundna starfsævi. Hvaða greiðslubyrði bíður t.d. 50 ára konu sem tekur verðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára og er með umtalsverða greiðslubyrði um nírætt?
    Fyrsti minni hluti telur að framangreint gefi tilefni til þess að taka málið aftur inn í nefnd á milli umræðna. Til hins sama leiða áhyggjur Samtaka fjármálafyrirtækja af því að frumvarpið, einkum ákvæðin sem varða greiðslumat og þak á árlega hlutfallstölu kostnaðar, hefti lánamöguleika skilvísra viðskiptavina eða takmarki framboð hefðbundinna lánssamninga (sjá fylgiskjal).

Alþingi, 18. febrúar 2013.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Pétur H. Blöndal.




Fylgiskjal.

Samtök fjármálafyrirtækja:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.